The Bambahús concept
Saga okkar
Á jóladag árið 2019 voru fyrstu tvö Bambahúsin afhent íbúum á Bolungarvík. Fljótlega fundu húsin sér sess við grunnskólann á staðnum og urðu upphafið að ferðalagi sem hefur síðan sýnt hvernig úrgangur getur orðið að verðmætum hluta samfélagsins.
Starfsemi Bambahúsa hófst formlega árið 2020 með skýra sýn: að umbreyta notuðum IBC-tönkum („bömbum“) og afgangsefnum úr byggingariðnaði í endingargóð, falleg og nytsamleg mannvirki. Þessi nálgun kallast uppvinnsla – ferli þar sem efni sem annars yrði hent fær nýtt hlutverk og meira gildi en áður, bæði fyrir fólk og umhverfi.
Hvar stöndum við í dag
Bambahús hafa þróast úr tilraunaverkefni í skilvirka og endurtekningarhæfa framleiðslu sem byggir á uppvinnslu, staðlaðri hönnun og handverksþekkingu. Í dag liggur fyrir mótuð framleiðsluaðferð sem gerir kleift að umbreyta notuðum IBC-tönkum í endingargóð mannvirki með fyrirsjáanlegum gæðum og lágmarks sóun.
Yfir 300 Bambahús-einingar hafa verið reistar víðs vegar um landið og eru í virkri notkun. Um 30 leik- og grunnskólar nýta húsin til ræktunar og fræðslu, sem samsvarar um 12% leikskóla landsins.
Um þriðjungur húsa hefur verið settur upp í tengslum við samfélagsverkefni, skóla og góðgerðastarfsemi, sem undirstrikar félagslegt gildi lausnarinnar samhliða umhverfislegum ávinningi.
Framleiðslan nær ekki einungis til gróðurhúsa, heldur einnig til íhluta, aukahluta og tengdra afurða úr sama grunnefninu. Þessi nálgun eykur efnisnýtingu, dregur úr úrgangi og skapar fjölbreyttari verðmæti úr hverjum tanki.
Reykjavíkurborg er í dag sú höfuðborg í heiminum sem hefur flest gróðurhús í almenningsrýmum miðað við íbúafjölda. Akranesbær hefur komið upp gróðurhúsum í alla sína leikskóla þar sem aðstæður leyfa.
Samhliða þessu hefur orðið til þekking, verkferlar og framleiðslumódel sem eru ekki bundin við einn stað. Þau gera kleift að færa starfsemina, aðlaga hana að ólíkum aðstæðum og byggja upp störf og verðmætasköpun þar sem hráefnið er til staðar.
Hvað við gerum
Bambahús hanna og framleiða fjölnota smáhýsi byggð á stálgrind, sem nýtast meðal annars sem gróðurhús, kennslurými, hjólageymslur og samfélagsrými. Hýsin eru einingar sem hægt er að setja upp, færa til og aðlaga að ólíkum þörfum og aðstæðum.
Framleiðslan byggir nær eingöngu á endurnýttu efni, einkum notuðum IBC-tönkum og afgangsefnum úr byggingariðnaði. Í gegnum þróunarvinnu hafa verið mótaðar aðferðir í einangrun, samsetningu og festingum sem henta íslensku veðurfari og gera mannvirkin endingargóð, örugg og auðveld í viðhaldi.
Framtíðarsýn
Við trúum að uppvinnsla verði lykilþáttur í framtíð byggingariðnaðar og þróunar sjálfbærra samfélaga.
Á næstu árum stefnum við að því að:
Efla hlutverk Bambahúsa í skólum og samfélagsverkefnum, með áherslu á menntun, ræktun og umhverfisvitund, og byggja upp varanleg tengsl við leik- og grunnskóla um allt land.
Þróa og innleiða nýjar vörulínur úr endurnýttum efnum, þar á meðal:
-
Bambablómapotta fyrir grænmeti, blóm og tré í borgarumhverfi.
-
Bambapotta, kalda og heita, sem eru þegar komnir í framleiðslu.
-
Ylhús, smáhýsi byggð úr bömbum og afgangsefnum byggingariðnaðar, sem nýtast meðal annars sem saunahús, hjólageymslur og önnur fjölnota rými – sjálfbær mannvirki unnin úr endurnýttum efnum.
-
Önnur mannvirki og nytjahluti sem sýna fram á möguleika skapandi uppvinnslu og fjölbreytta nýtingu efna sem annars færu til förgunar.
Hefja útflutning, ekki einungis á vörum heldur einnig á hugmyndafræði, framleiðsluaðferðum og þekkingu Bambahúsa. Markmiðið er að þróa lausnir í löndum þar sem sambærilegur vandi er til staðar við förgun IBC-tanka og stuðla þannig að sjálfbærri verðmætasköpun á alþjóðavísu.
Bambahús stendur fyrir nýsköpun, sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð. Með einföldum lausnum höfum við þegar skapað áþreifanleg áhrif á umhverfi, borgarlandslag og menntun barna.
Ferðin er rétt að hefjast.

Jón Hafþór
Stofnandi
S: 8625008
Carlos
Meðstofnandi
S:8549492


Sigrún Arna
Meðstofnandi & fjármálastjórn
S:7776161


