Leik og grunnskólar
Bambahús er ekki aðeins varanlegt gróðurhús eða útikennslustofa, heldur rými þar sem börn upplifa hvernig hlutir geta breytt um hlutverk. Þar verður uppvinnsla sýnileg í verki og efni sem annars væri talið úrgangur fær nýtt líf og nýtt gildi í daglegu skólastarfi.
Húsin henta sérstaklega vel á skólalóðum. Þau eru sterk, þola mikla notkun og eru hönnuð til að endast í aðstæðum þar sem margir litlir notendur koma við sögu.
Í Bambahúsi verður til lifandi útikennslustofa þar sem nám á sér stað í gegnum þátttöku. Þar mætast ræktun, sjálfbærni, líffræði og skilningur á náttúrulegum ferlum á einfaldan og aðgengilegan hátt.
Frá stofnun Bambahúsa hefur verið lögð áhersla á að koma slíkum húsum fyrir við sem flesta leik- og grunnskóla um allt land. Áhugi skólanna fer vaxandi, samhliða aukinni vitund um mikilvægi ræktunar og tengsla barna við fæðu og náttúru.
Markmið Bambahúsa er að styðja við þessa þróun með einföldum og varanlegum lausnum sem nýtast í daglegu starfi skólanna og stuðla að ábyrgð og sjálfbærni í nærsamfélagi.
Barn sem ræktar kál, borðar kál.


Eldri borgara og fólk með hreyfihömlun
Bambahús henta einstaklega vel þessum hópi og eru nú í vaxandi mæli hluti af virkniúrræðum, dagþjálfun, sérhæfðum heimilum og í nærumhverfi fólks.
Það er djúpstætt, heilandi og gefandi að hafa hendurnar í mold. Ræktun skapar ró, tilgang og tengingu, bæði við náttúruna og hvert annað. Fyrir marga verður hún leið til að finna sig aftur, skapa eitthvað lifandi og upplifa daginn sem innihaldsríkan.
Gróðurker Bambahúsa eru í vinnuhæð, sem dregur úr líkamlegu álagi og gerir ræktun aðgengilega án þess að beygja sig eða krjúpa. Undir kerunum er gott geymslupláss, og húsin má aðlaga að þörfum hvers staðar.
Fyrir fólk í hjólastólum er hægt að lækka gróðurkerfin, auka bil milli beða og tryggja greiðan aðgang. Þannig geta allir tekið þátt á sínum forsendum.
Ræktun í Bambahúsum styður meðal annars við:
-
daglega virkni og hreyfingu
-
skynörvun (lykt, snertingu, liti og bragð)
-
félagsleg samskipti og samveru
-
tilfinningu fyrir tilgangi, ábyrgð og sjálfsvirðingu
Bambahús eru því ekki aðeins ræktunarhús, heldur virkni- og velferðartæki sem styðja við heilsueflandi samfélag þar sem fólk er virkur þátttakandi – alla ævi.

Stuðningur og samstarf
Uppbygging Bambahúsa í skólum og samfélögum hefur byggt á öflugum stuðningi frá bæði opinberum aðilum og fyrirtækjum sem hafa trúað á gildi verkefnisins.
Þessi samvinna hefur gert okkur kleift að bæta aðstæður til ræktunar, efla skólastarf og þróa sjálfbærar lausnir í nærumhverfi barna.Með stuðningi frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Landsvirkjun og Landsbankanum fylgir nú hitastýrð, sólarknúin vifta öllum Bambahúsum sem sett eru upp við skóla. Þessi búnaður er afar mikilvægur fyrir loftflæði og ræktunarskilyrði og tryggir að plöntur haldist heilbrigðar, einnig á meðan skólabörn eru í fríi.
Þetta eru miklar gleðifréttir fyrir skólastarf um allt land.
Sérstakar þakkir fá Krónan og Íslenska Gámafélagið, sem hafa verið mikilvægir bakhjarlar verkefnisins og átt stóran þátt í að gera uppvinnslu að raunverulegri og sýnilegri lausn í samfélaginu.
Við þökkum innilega öllum þeim aðilum sem hafa stutt verkefnið og gert þessa vegferð mögulega.


